Rekstur Birtu hefur gengið þokkalega síðasta sólahring en við höfum verið í vandræðum með töppun á málmi sem er ekki óalgengt í nýjum ofni og nýrri verksmiðju þar sem að starfsmenn eru að læra réttu handtökin. Rekstur reykhreinsivirkisins hefur gengið ágætlega en áfram er unnið að fínstillingum á því og má búast við að það taki einhverjar vikur.

Við viljum því aðeins fjalla um þann reyk sem hefur myndast vegna gangsetningar Birtu. Frá því að byrjað var að gangsetja Birtu hafa loftgæði í nágrenni kísilversins aldrei farið yfir heilsuverndarmörk sem eru 50 µg/m3 meðalgildi sólarhrings. Skv. upplýsingum sem má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar eru loftgæði góð innan 0 – 50 µg/m3 og allir ættu að njóta útiveru. Ef gildi fara í 50 – 100 µg/m3 eru loftgæði sæmileg og flestir ættu að geta verið úti án vandkvæða. En þó gætu þeir viðkvæmustu fundið fyrir einkennum. Í þessu samhengi fylgjumst við með syðri loftgæðastöðinni okkar þar sem það sem mælist þar er líklegt til að berast til Húsavíkur.

Eftir að gangsetning hófst þann 30 apríl hafa verið tveir toppar sem hafa varað í mjög stutta stund þar sem svifryk fór í fyrra skiptið þann 4 maí í 76,8 µg/m3 og í seinna skiptið þann 10 maí í 73,4 µg/m3. Önnur gildi hafa verið undir 50 µg/m3 og meðalgildið fyrir þetta tímabil, 30 apríl til dagsins í dag, er 10,5 µg/m3 og eins og áður sagði hafa sólarhringsgildi aldrei mælst yfir heilsuverndamörkum þrátt fyrir þessa tvo toppa sem minnst er á.

Þessir tveir toppar í maí á þessu ári eru ekki á þeim tíma þegar við höfum verið í vandræðum með reykhreinsivirkið og reykur hefur borist frá kísilverinu. Loftgæði eru misjöfn dag frá degi út af veðurfræðilegum skilyrðum og þessir toppar eru alls ekki nýir af nálinni hér á Húsavík.  Ef við skoðum loftgæði við Húsavík á heimasíðu Umhverfisstofnunar www.loftgaedi.is sést að hæsti toppurinn í fyrra (2017) var yfir 150 µg/m3 og svifryk fór 52 sinnum yfir 50 µg/m3 og 20 sinnum yfir 75µg/m3.

Við viljum nýta tækifæri og benda aftur á að hægt er að fylgjast með loftgæðum víðsvegar um landið á heimasíðu Umhverfisstofnunar www.loftgaedi.is

Ef einhverjar spurningar vakna viljum við benda á að hægt er að senda fyrirspurnir á info@pcc.is þar sem við leitumst við að svara eins fljótt og auðið er.