Umhverfismál í öllu samhengi skipta okkur hjá PCC miklu máli og ekki síst að halda nærumhverfi okkar hreinu og að úrgangur frá byggingu verksmiðjunnar dreifist ekki um okkar fallega umhverfi sem Bakki er. Öllum byggingarframkvæmdum fylgir ýmis úrgangur, mikill hluti er plast sem er létt og því getur það auðveldlega fokið burt.  Í vor fór okkar starfsfólk að hreinsa fjörur og gróið land í nágrenni okkar en við urðum frá að hverfa án þess að geta klárað til að gefa fuglalífinu á Bakka tækifæri að koma ungviðinu á legg.

Nú er kominn tími til að halda áfram og fengum við frábæra aðstoð frá stelpunum í 2. flokki Völsungs ásamt fylgdarliði hér í fjöruna með það að markmiði að hreinsa hana. Það var af nógu að taka og gekk vel að tína ruslið. Þetta var liður í fjáröflun liðsins fyrir komandi keppnisferðir og með þessu gátum við slegið tvær flugur í einu höggi, styrkt Völsung og bætt náttúruna hér á Bakka.