Langþráðu markmiði var náð þegar Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi fyrir rekstur PCC BakkiSilicon. PCC BakkiSilicon fagnar þessum áfanga og hefur fyrirtækið sett sér það markmið að vera leiðandi í umhverfismálum iðjuvera.

Starfsleyfið hefur þá sérstöðu að vera það fyrsta sem gefið er út í Evrópu eftir að nýjar reglur um bestu fáanlegu tækni voru innleiddar innan Evrópska efnahagsvæðisins og færðar inní íslensk lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gerðar eru strangari kröfur til hreinsunar útblásturs iðjuvera við eðlilegan rekstur. Í nýútkomnu starfsleyfi PCC BakkiSilicon er dagsmeðalgildi útblásturs frá ofnunum lækkað úr 20 milligrömmum í hverjum rúmmetra í sambærilegum starfsleyfum í 5 milligrömm í hverjum rúmmetra og taka þau mörk gildi þann 01.07.2020. Fram að þem tíma eru mörkin þau sömu og í nýlega útgefnum starfsleyfum, hjá USi og Thorsil, 20 milligrömm í hverjum rúmmetra. Þegar nýju mörkin taka gildi er ákvæði sem heimilar að 5% af rekstrartíma megi dagsmeðalgildið liggja á bilinu 5-20 milligrömm í hverjum rúmmetra, enda kveða reglurnar á um að þau skuli gilda við eðlilegan rekstur og skilgreinir þessi heimild hvernig höndla skuli aðstæður sem ekki flokkast þar undir. Í þessu samhengi er rétt að geta að rykið er verðmæt söluafurð sem PCC BakkiSilicon mun kappakosta við að fanga og koma í verð.

Starfsleyfið kveður á um marga aðra þætti, svo sem vöktun umhverfisins og förgun úrgangsefna. PCC BakkiSilicon hefur fengið óháða aðila til að sjá um allar mælingar og sýnatökur vegna umhverfisvöktunar. Efla verkfræðistofa sér um rekstur tveggja loftgæðamælistöðva norðan og sunnan við verksmiðjulóðina, en staðsetning þeirra var ákveðin í samfráði við Umhverfisstofnun. PCC BakkiSilicon hefur samið við Náttúrfræðistofu Norðausturlands um sýnatökur vegna bakgrunnssýna, t.d. í gróðri, jarðvegi og vatni sem sýna ástand umhverfisins áður en rekstur hefst. Áframhaldandi vöktun verður á þessum umhverfisþáttum á rekstrartíma.

Loftgæðamælingarnar verður hægt að nálgast í rauntíma á heimasíðu Umhverfisstofnunar og niðurstöður annarra mælinga verða birtar þar.

Starfsleyfið er hægt að nálgast í heild sinni á heimasíðu Umhverfisstofnunar og hvetjum við alla til að kynna sér það.