Það er mikill kraftur í verkefninu á Bakka þessa dagana og um fimm hundruð manns vinna hörðum höndum við að ljúka byggingu kísilversins. Unnið verður við framkvæmdirnar yfir páskana en þó er stefnt að því að stór hluti starfsfólks verktaka fari í páskaleyfi.

Eftir páska hefst lokaáfangi verkefnisins sem endar með því að ofn nr. 1, Birta, verður gangsettur. Í þessum áfanga felast meðal annars lokaprófanir á hinum ýmsu kerfum, öryggisúttektir og tiltekt, ásamt kennslu á búnað verksmiðjunnar í endanlegu umhverfi, sem er eins konar generalprufa. Undir lok þessa ferlis verður byrjað að hita ofninn. Byrjað er mjög rólega og ofninn keyrður upp hægt og stöðugt í nokkra daga án hráefna til að baka fóðringu ofnsins. Næsta skref er að byrjað að bæta hráefnum í ofninn en það er líka gert í litlum skrefum til að byrja með. Reikna má með að allt að tvær vikur líði frá því að fyrst er byrjað er að hita ofninn þar til fyrsta kísilmálminum verður tappað af honum.

PCC BakkiSilicon og SMS sem byggir verksmiðjuna leggja mikla áherslu á að ónæði af uppkeyrslu kísilversins verði sem allra minnst og að nágrannar kísilversins verði lítið sem ekkert varir við uppkeyrsluna. 

Fyrirtækið hefur sett þá stefnu að halda almenningi og öðrum hagsmunaaðilum upplýstum um gang mála og munu því tilkynningar birtast á heimasíðu PCC BakkiSilicon og á Facebook á meðan uppkeyrsluferlið er í gangi.

Á þessari stundu er ekki vitað nákvæmlega hvenær byrjað verður að hita ofninn en það fer eftir hvernig þjálfun og öryggisúttektir ganga. Ekki verður gangsett fyrir en allt er örugglega tilbúið. Lokaundirbúningurinn fyrir gangsetningu ætti ekki að taka meira en tvær vikur.