Sveitarfélagið Norðurþing hefur skrifað undir viðamikinn samstarfssamning við PCC BakkiSilicon sem felur í sér að PCC mun nýta þá fjármuni, sem að óbreyttu hefðu farið í stofnfjárfestingu á búnaði fyrir eigin brunavarnir á starfssvæði sínu á Bakka og þjálfun tilheyrandi mannskaps, til að styrkja starfsemi og starfsgetu slökkviliðsins á Húsavík sem nýst geti nærsamfélaginu öllu. Samningurinn er til þriggja ára með mögulegri framlengingu um tvö ár.

Þannig mun samningurinn gera Norðurþingi auðveldara fyrir að ráða slökkviliðsmenn í fullt starf til viðbótar þeim sem fyrir eru hjá liðinu. Að auki gefur PCC slökkviliðinu nýja Mercedes Bens bifreið í samvinu við Öskju, umboðsaðila Mercedes Bens á Ísandi, sem sveitarfélagið mun taka við og hanna og smíða til samræmis við þarfir slökkviliðisins um nýja neyðarbifreið.

Byggjum ofan á núverandi reynslu
„Við teljum að samningurinn sé mjög góður fyrir báða aðila,“ segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC Bakki Silicon. „Bæði leiðir þetta til þess að starfsemi slökkviliðsins á Húsavík eflist en það þjónar ekki bara þéttbýlinu á staðnum heldur einnig dreifbýlinu í kring. Í raun erum við að fjárfesta í þekkingu og reynslu starfandi slökkviliðs og byggja ofan á það í stað þess að stofna nýtt teymi á eigin vegum sem eingöngu myndi nýtast á starfssvæðinu hjá okkur. Þannig að við erum mjög ánægð með þennan samning,“ segir Hafsteinn.

Ný slökkvistöð í bígerð
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings tekur í sama streng. „Þetta er ánægjuleg niðurstaða sem gerir mögulegt að bæta þjónustu slökkviliðsins í sveitarfélaginu. Jafnframt hyggur sveitarfélagið á byggingu nýrrar slökkvistöðvar á Húsavík sem tekin verður í gagnið haustið 2018. Hún verður ekki síður mikil lyftistöng fyrir liðið sem og íbúa og fyrirtæki á svæðinu,“ segir Kristján Þór.

Nýlega var skrifað var undir samstarfssamning Norðurþings og PCC Bakki Silicon hf. í stjórnsýsluhúsi Norðurþings þar sem Kristín Anna Hreinsdóttir fjármálastjóri PCC og Kristján Þór Magnússon sveitastjóri Norðurþings staðfestu samninginn með undirritun sinni.