Kísill er ekki eina söluvaran sem flutt verður frá Húsavíkurhöfn, heldur myndast einnig við reksturinn svokallað kísilryk. Kísilrykið er efnið sem reykhreinsivirkið síar úr reyknum frá ofnunum. Til að gera það er reykurinn leiddur í gegnum síupoka og úr þeim er því safnað í síló. Umhverfisstofnun gerir mjög strangar kröfur til útblásturs frá verksmiðjunni. Til að standast þær þarf reykhreinsivirkið að hreinsa yfir 99,9 % ryksins frá ofninum. Einnig hefur verið settur upp öflugur eftirlitsbúnaður sem vaktar gæði útblástursins svo hægt sé að grípa strax inni í komi eitthvað upp á sem skerðir virkni síupokanna.

Í dag var pökkunarbúnaðurinn svo prófaður og fyrsta kísilrykinu pakkað og sést fyrsti pokinn á meðfylgjandi mynd. Það gekk prýðilega. Kaupandi ryksins er Elkem í Noregi og bíða þeir spenntir eftir fyrstu sendingunni frá okkur.

Af ofninum okkar, Birtu, er það að frétta að tekist hefur að greina tækniörðuleikana sem komu upp í stjórnbúnaði brúkrana í steypulínu á mánudagskvöld. Prófanir á krananum munu fara fram í nótt. Miklu máli skiptir að stjórnbúnaður kranans virki rétt svo að öryggi starfsfólks sé tryggt.  Ef búnaðurinn stenst prófanirnar mun upphitun á ofninum hefjast í fyrramálið. Reiknað er með að kísli verði svo tappað um hádegisbil.